Fjarska: Stofnun nýrra samtaka á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta
Ágrip:
Mikil þróun hefur verið á undanförnum áratugum á Íslandi á sviði fjarnáms og netkennslu en fram til þessa árs hafa ekki verið starfandi sérstök samtök á því sviði hér á landi ólíkt hinum Norðurlöndunum. Í erindinu er fjallað um tilurð, hlutverk og starfsemi samtaka sem stofnuð voru í júní á þessu ári (2024) og hafa fengið heitið Fjarska – samtök um fjarnám og stafræna kennsluhætti.
Gerð var úttekt á starfsemi fjögurra sambærilegra samtaka á Norðurlöndum í júní 2023. Tekin voru viðtöl þar sem spurt var út í lykiláherslur, aðild, fjármögnun, virkni og áskoranir varðandi starfsemi. Haldinn var hugmyndafundur á netinu í kjölfarið með innlendum aðilum sem tengdust fjarnámi á mismunandi skólastigum og í fullorðinsfræðslu. Þátttakendur voru 35 frá tólf vinnustöðum sem svöruðu netkönnun og unnu saman í litlum hópum að hugmyndavinnu um tilgang og áherslur slíkra samtaka. Í framhaldinu voru margir sem gáfu kost á sér í áframhaldandi undirbúningsvinnu sem hófst haustið 2023.
Niðurstöðurnar gáfu til kynna að þörf væri á að stofna íslensk samtök á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta og lykiláherslur ættu að vera á: aðgengi, hagsmunasamstarf (e. advocacy), framkvæmd, þróunarstarf, gæðamál, hæfniþróun, miðlun, rannsóknir, samstarf, sýnileika, vettvang og viðburði.
Þátttakendum, sem hlusta á erindið, er boðin aðild að samtökunum (sjá fjarska.is) og að taka þátt í umræðum um starfsemi, áherslur og fyrstu skref samtakanna.
Höfundar:
Sólveig Jakobsdóttir, prófessor í fjarkennslufræðum á Menntavísindasviði (soljak@hi.is)
Sigurbjörg Jóhannesdóttir, aðjunkt í Upplýsingafræði á Félagsvísindasviði (sigurbjorg@hi.is) og verkefnastjóri fjarnáms og ritskimunar hjá Kennslumiðstöð, Háskóla Íslands
Glærur:
https://iris.rais.is/files/229634925/20240926_Menntakvika_Fjarska.pdf