Lög samtakanna
1. gr. Heiti
Félagið heitir Fjarska – samtök um fjarnám og stafræna kennsluhætti. Enskt heiti félagsins er Fjarska – Icelandic Association for Distance and Digital Education.
2. gr. Hlutverk og markmið
Hlutverk samtakanna er að:
- Vera vettvangur innlends og alþjóðlegs samstarfs um þekkingu, rannsóknir og þróun á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta í skólum og á sviði fullorðinsfræðslu og símenntunar.
Markmið samtakanna er að:
- Efla skilning á fjarnámi og mikilvægi þess með tilliti til félagslegs réttlætis og aðgengis sem flestra að námi.
- Auka gæði fjarnáms, framboð og sýnileika.
- Stuðla að þróun stafrænna kennsluhátta með nám og hagsmuni nemenda að leiðarljósi.
3. gr. Starfsemi
Markmiðum sínum hyggst félagið m.a. ná með því að:
- Skapa samfélag sem tekur þátt í uppbyggingu og miðlun þekkingar á sviði fjarnáms og stafrænna kennsluhátta.
- Fylgjast með, styðja og vekja athygli á rannsóknum og þróunarstarfi varðandi gæði og framþróun.
- Standa fyrir viðburðum og hvers konar fræðslu.
- Taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi og þróunarstarfi
4. gr. Aðild og félagsgjald
Félagar geta allir þeir orðið, einstaklingar, skólar, stofnanir og fyrirtæki, sem eru hlynntir markmiðum samtakanna og vilja leggja þeim lið. Félögum er skylt að greiða árgjald til samtakanna. Árgjöld eru ákveðin á aðalfundi hverju sinni að fenginni tillögu stjórnar og innheimt árlega. Árgjöld félagsmanna eru óafturkræf.
5. gr. Aðalfundur
Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir starfsemi liðins almanaksárs. Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögufrelsi og atkvæðisrétt eiga allir félagar samtakanna sem eru skuldlausir við samtökin.
Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn einum mánuði fyrir aðalfund.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara og skulu þar kynntar tillögur að lagabreytingum. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar
- Ákvörðun félagsgjalds
- Kosning stjórnar
- Kosning skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál
6. gr. Stjórn
Á aðalfundi er kosin níu manna stjórn. Stjórn skiptir með sér verkum: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnendur. Æskilegt er að stjórn sé skipuð fulltrúum frá flestum skólastigum og hagsmunaaðilum úr atvinnulífinu eins og við á.
7. gr. Fjármál
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi samtakanna skal varið í samræmi við tilgang þeirra. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi samtakanna.
8. gr. Slit samtakanna
Ákvörðun um slit samtakanna skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.
Þetta eru drög. Verða væntanlega samþykkt á stofnfundi samtakanna sem fer fram á Zoom.
Dagsetning: 12. júní 2024