Vefstofa FJARSKA: Fjarkennsla og reynsla nemenda í skjalfræði af fjarnámi

Námsleiðin Hagnýt skjalfræði – viðbótardiplóma hefur verið í boði sem fjarnám frá 2020. Lagt er kapp á að gera námið aðgengilegt fyrir nemendur óháð búsetu og að nemendur geti haft nokkra stjórn á hvenær þeir sinna náminu. Um er að ræða fjarnám með netfundum þar sem gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku en það er ekki skyldumæting. Kennari ákvað að vinna starfendarannsókn og vildi skoða tengslamyndun nemenda í fjarnámi. Tekið var fyrir skyldunámskeið í námsleiðinni og spurningalisti lagður fyrir nemendur í lok annar.

Kennari hafði nýtt sér ýmsar leiðir við skipulagningu námskeiðsins sem hafa reynst vel í fjarkennslu, s.s. að búta fyrirlestra niður í 10-15 mínútna upptökur, setja efnið skipulega upp og gera aukamyndbönd til útskýringar og kynningar á tilteknu efni. Einnig var ýmislegt gert til að ná til nemenda og reyna að ná fram virkni í gegnum umræðuþræði og netfundi sem dæmi en einnig áttu nemendur að vinna saman og kynna eigin verkefni í námskeiðinu.

Aðferð

Spurningalistinn sem notast var við varð þríþættur Í fyrsta hlutanum var notast við spurningalista sem áður hafði verið lagður fyrir nemendur í námskeiðum á Félagsvísindasviði og unninn af Sigurbjörgu Jóhannesdóttur, verkefnastjóra fjarnáms og stafrænnar kennslu á Menntavísindasviði í samráði við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur prófessors á Félagsvísindasviði.[1] Í spurningalistanum voru settar fram nokkrar fullyrðingar um ýmsa þætti námskeiðsins, skipulag þess, kennsluaðferðir, uppbyggingu og hvernig nemendur skilgreindu sjálfa sig.

Í öðrum hluta var notast við spurningalistann MUSIC sem Ásta B. Schram dósent á Heilbrigðisvísindasviði þýddi og sannreyndi á íslensku.[2] Í spurningalistanum, sem byggður er á MUSIC módelinu, er meðal annars spurt um viðhorf nemenda til kennsluhátta og hvort þeir upplifi umhyggju kennara. Módelið samanstendur af fimm þáttum sem ætlað er að útskýra tengsl þeirra þátta sem hafa áhrif á áhugahvöt nemenda.  MUSIC módelið hefur verið notað til að draga fram þá fimm þætti sem gætu hjálpað kennurum að skilja hvað er það sem hvetur nemendur áfram og auðveldað þeim að taka meðvitaðar ákvarðanir í kennsluaðferðum sínum og skipulagningu námskeiða sinna til að stuðla að því markmiði. Áhugasamir nemendur eru líklegri til að taka betur eftir í kennslustundum, verja tíma markvisst í lærdóm og leitast eftir hjálp frá öðrum þegar þeir þurfa á því að halda.[3] Þessir fimm þættir eru valdefling (e. Empowerment), gagnsemi (e. Usefulness), árangur (e. Success), áhugi (e. Interest) og umhyggja (e. Caring). MUSIC módelið byggir meðal annars á kenningum um þörfina til að tilheyra hóp (e. The Need to Belong theory)[4] og sjálfsákvörðunarkenningum (e. Self-Determination theory eða SDT).[5] Svör nemenda voru mæld á sex kvarða Likert kvarða frá Mjög ósammála til Mjög sammála þar sem Mjög ósammála hefur gildið 1 en Mjög sammála gildið 6. Hér þurftu nemendur að taka afstöðu, ekki var í boði að svara veit ekki.

Í þriðja hlutanum voru þrjár opnar spurningar þar sem nemendur gátu komið skoðunum sínum á framfæri varðandi kennsluhætti, fyrirkomulag og þess háttar, hvort það væri eitthvað sem mætti betur fara og svo í lokin hvort þeim hefði fundist eitthvað vel gert í námskeiðinu.

Listinn var lagður fyrir nemendur í námskeiðinu Opinber skjalavarsla og skjalastjórn í fortíð og nútíð, 10 eininga skyldunámskeið til viðbótardiplómu í Hagnýtri skjalfræði á Hugvísindasviði haustið 2021.

Helstu niðurstöður

Nemendur voru almennt ánægðir með fjarkennsluna þó þeir söknuðu líka staðtíma. Það hjálpaði þeim mikið að hafa fyrirlestrana hlutaða niður í smærri einingar svo þau ættu auðveldara með að hlusta á eigin hraða og tíma. Flestum finnst betra að kennarinn sé í mynd í upptökunum og það hjálpar þeim að ná tengingu við kennara í fjarnámi.

Það kom á óvart að 87% svöruðu að þeim hafi fundist þeir kynnast samnemendum sínum þar sem almennt er talið að það sé minna um félagsleg tengsl í fjarnámi. Líklega hafa hópverkefni og fjarfundir hjálpað hér til.

Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að hitta aldrei nemendur í raunheimum og að öll samskipti hafi farið fram í gegnum fjarfundi, tölvupóst eða canvas vef námskeiðsins þá upplifðu nemendur sterkt umhyggju kennara. Upplifun nemenda af námskeiðinu var almennt jákvæð og þeir upplifðu allir að kennarinn vildi þeim vel og vildi að þeim gengi vel. Öllum fannst þeir hafa gagn af námskeiðinu, fannst þeir geta náð góðum árangri og þeir lögðu sig fram á námskeiðinu (þ.e. svöruðu frekar til mjög sammála). Þá upplifðu nemendur að þeir hefðu nokkuð val um hvernig þeir lærðu og leystu verkefnin. Allir sem svöruðu upplifðu að þeir gætu óhikað tjáð sig í tímum sem var mikilvægt í ljósi þess að allir tímar voru fjartímar.

Þessar niðurstöður voru mjög ánægjulegar, því þrátt fyrir að hitta nemendur ekki í eigin persónu þá upplifa þeir samt sem áður greinilega sterk tengsl við samnemendur og kennara. Fjarfundatímarnir hafa gefist vel og nemendur virðast vera ánægðir með að hafa suma tíma þannig eins og þegar gestakennarar koma í tíma eða þegar haldnir eru sérstakir umræðutímar í fjarfundi. Langflestum finnst kennsluaðferðirnar vera hvetjandi, þ.e. hvetja þau til þátttöku og halda athygli í tímum.

Heimildir

[1] Ásta B. Schram og Sigurbjörg Jóhannesdóttir, „Upplifun nemenda af tengslum við kennara og umhyggju hans fyrir þeim í námskeiði sem kennt var í fjarnámi við Háskóla Íslands“.

[2] Ásta B. Schram og Brett D. Jones, „A cross-cultural adaptation and validation of the Icelandic version of the MUSIC Model of Academic Motivation Inventory“, 159-181.

[3] Jones, Brett D., „Motivating Students to Engage in Learning: The MUSIC Model of Academic Motivation“, 272-273.

[4] Baumeister, Roy F. og Leary, Mark R., „The Need to Belong: Desire for Interpersonal Attachments as a Fundamental Human Motivation“.

[5] Deci, Edward L. og Ryan, Richard M., „Self-Determination Theory“


Skip to content