Valvíst nám

Til fjölda ára hefur Menntavísindasvið Háskóla Íslands og áður Kennaraháskóli Íslands boðið upp á fjarnám. Fyrir aldamót fóru kennararnir til nemendanna, ekki ólíkt farkennurum fyrri tíma, og iðnmeistarar og fólk með bakkalár gráður gat stundað kennsluréttindanám á heimahögum og átt í samskiptum við kennara í gegnum tölvupóst. Síðan þá hefur margt breyst og nú býður tæknin fólki að eiga samskipti við aðra alveg óháð stað og tíma og veruleiki fullorðins fólks er að æ fleiri sjá sig knúna til að auka við menntun sína ítrekað yfir starfsævina en hafa til þess takmarkaðan tíma og það kallar því eftir sveigjanleika í þátttöku í námsferlinu. Sá veruleiki leiðir til þess að fólk sem býður öðrum upp á þátttöku í námsferlum þarf að velja hvernig það velur og blandar saman möguleikum til samskipta á þeim námsferlum sem það hannar og leiðir.

Á vefstofu Fjarska þann 11. desember bauð ég þátttakendum upp á samtal um námsfyrirkomulag sem starfsfólk á Menntavísindasviði hefur valið að nefna “Valvíst nám” og byggir á þeirri hugmynd að þátttakendur á námsferli geta á hverjum tíma valið hvernig þeir haga þátttöku sinni í rauntímaviðburðum á námskeiðinu. Á vefstofunni kynnti ég fyrirkomulagið og gildi sem hafa verið sett fram af Brian Beatty í skrifum sínum um s.k. “HyFlex” course design. Mér finnst kosturinn við að styðjast við slíka úthugsaða nálgun að hún minnir á og skapar samhengi fyrir ýmis atriði sem tengjast skipulagning kennslu sem maður gæti gleymt eða vanrækt.

Takk fyrir gagnlegar og ánægjulegar umræður.

Hér má sækja glærurnar sem voru notaðar við kynninguna:
Hróbjartur Árnason – 2024 – Valvíst nám – Vefstofa Fjarska.pptx

Skip to content