Viljum við stofna íslensk samtök á sviði fjarnáms og stafræns náms?
Á Menntakviku 2023 var fyrirlestur á málstofu RANNUM, með niðurstöðum frá hugmyndafundi um stofnun nýrra samtaka á sviði fjarnáms, ásamt niðurstöðum úr viðtölum sem Sólveig og Sigurbjörg tóku við aðila sem stýra slíkum samtökum á hinum norðurlöndunum.
Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sólveig Jakobsdóttir og Hróbjartur Árnason.(2023, 29. september). Viljum við stofna íslensk samtök á sviði fjarnáms og stafræns náms? [Fyrirlestur]. Menntakvika: Ráðstefna í menntavísindum, Málstofa RANNUM. https://iris.rais.is/is/activities/viljum-vi%C3%B0-stofna-%C3%ADslensk-samt%C3%B6k-%C3%A1-svi%C3%B0i-fjarn%C3%A1ms-og-stafr%C3%A6ns-n%C3%A1m
Glærur:
https://iris.rais.is/files/192006621/20230929_Menntakvika_Stofnun-samtaka-um-fjarnam.pptx
Myndskeið á YouTube:
https://youtu.be/CK3I4L9xkFE?si=Tf5olPedtnk2EkLw
Ágrip
Mikil þróun hefur orðið á undanförnum áratugum á Íslandi á sviði fjarnáms og netkennslu en fram að þessu hafa ekki verið starfandi sérstök samtök á því sviði ólíkt hinum Norðurlöndunum. Erindið fjallar um rannsókn á starfsemi slíkra samtaka og greiningu á viðhorfum innlendra aðila sem tengjast fjarnámi á mismunandi skólastigum og í fullorðinsfræðslu.
Í júní 2023 voru tekin viðtöl við forsjáraðila fjögurra samtaka á sviði fjarnáms á Norðurlöndunum þar sem gögnum var safnað um lykiláherslur, aðild, fjármögnun, virkni og áskoranir varðandi starfsemi. Þá var haldinn hugmyndafundur á netinu um hvort talin væri þörf á að stofna samtök á Íslandi á sviði fjarnáms og stafræns náms. Þátttakendur voru 35 frá 12 vinnustöðum. Þeir mynduðu orðaský og hópar unnu á Mural vegg þar sem þeir komu með tillögur að tilgangi, áherslum og markhópum samtakanna. Þátttakendur svöruðu netkönnun.
Gögn voru greind og gerð skýrsla um helstu niðurstöður. Mikill meirihluti þátttakenda (96%) á hugmyndafundinum var sammála um að þörf væri á að stofna ný íslensk samtök á sviðinu og 71% sögðu að þau ættu að starfa bæði á sviði fjarnáms og stafræns náms. Hugmyndir um tilgang og áherslur tengdust 12 flokkum: Aðgengi, hagsmunasamstarfi (e. advocacy), framkvæmd, þróunarstarfi, gæðamálum, hæfniþróun, miðlun, rannsóknum, samstarfi, sýnileika, vettvangi og viðburðum.
Talin er þörf á að stofna samtök á sviði fjarnáms og stafræns náms á Íslandi. Undirbúningshópur er tekinn til starfa og stefnt á að samtökin verði stofnuð haustið 2023. Taka þarf ákvarðanir um tilgang, áherslur, markhópa og framkvæmd þannig að samtökin gagnist sem best skólum, fullorðinsfræðslu og atvinnulífi.
Hlusta á fyrirlesturinn
Skjámyndir af glærum